Um okkur

Ásta Begga Ólafsdóttir og Gísli Sveinsson:

Ásta Begga er fædd og uppalin í Flugumýrahvammi í Skagafirði, dóttir Ólafs Þórarinssonar og Sigurveigar Rögnvaldsdóttur. Gísli er fæddur og uppalinn á Varmalæk í Skagafirði, sonur Sveins Jóhannssonar og Herdísar Björnsdóttur.

Við rákum ferðaþjónustu frá árinu 1992 til 2001 að Leirubakka í Landsveit, góð ár. Árið 1998 keyptum við land úr jörð Sumarliðabæjar, byggðum þar upp ferðaþjónustuaðstöðu og fluttum í lok árs 2000. Þar rákum við frábært ferðaþjónustufyrirtæki, hrossarækt og tamningar til september 2007. Þá fluttum við í Miðás, land sem við keyptum úr jörð Syðri – Hamra. Þar byggðum við íbúðarhús, hesthús og reiðhöll og búum þar.

Katla Gísladóttir:

 

Katla er fædd í Reykjavík 1986. Hún hefur alltaf haft mikinn áhuga á hrossum og hrossarækt. Árið 2005 útskrifaðist hún sem stúdent frá Fjölbrautarskóla Suðurlands. Eftir það starfaði hún einn vetur við tamningar á Hestheimum. Síðan lá leiðin í Háskólann á  Hólum. Þar útskrifaðist hún sem Hestafræðingur og leiðbeinandi árið 2007 og sem Tamningamaður árið 2008 eftir að  hafa verið í verknámi hjá Erlingi Erlingssyni og Viðju Hrund í Langholti. Árið 2012 útskrifaðist hún með BS í umhveris- og byggingarverkfræði frá Háskóla Íslands og hóf þar meistaranám, einnig í umhverfis- og byggingaverkfræði á sama tíma. Vorið 2013 skellti hún sér svo aftur norður á Hóla og útskrifaðist sem reiðkennari þaðan um sumarið. Veturinn 2013-2014 hefur Katla dvalið í Stuttgart í Þýskalandi og stundað þar skiptinám í Umhverfisverkfræði, auk þess sem hún hefur unnið samhliða námi við reiðkennslu. Í haust mun hún svo koma aftur heim til Íslands og vinna við lokaverkefni sitt í verkfræðinni og hlakka allir í Miðásfjölskyldunni mikið til að fá hana heim til okkar aftur.

Katla hefur náð góðum árangri í keppni og keppt mikið frá því hún var lítil, m.a á Úlf frá Hjaltastöðum, Viðju frá Neðra-Seli og Órator frá Grafarkoti. Bestum árangri náði hún með Órator frá Grafarkoti en þau urðu Íslandsmeistarar í tölti ungmenna árið 2006 og kepptu saman á Heimsmeistaramóti Íslenska hestsins í Hollandi árið 2007.

Katla og Árni Geir kærasti hennar munu búa í Reykjavík þegar þau koma heim til okkar frá Þýskalandi.

 

Inga Berg Gísladóttir

 

Inga Berg er fædd í Reykjavík  árið 1989. Hún útskrifaðist sem dúx frá Fjölbrautarskóla Suðurlands árið 2008. Haustið 2008 hóf hún nám  í Uppeldis – og menntunarfræði við Háskóla Íslands og útskrifaðist þaðan 2011. Sama ár hóf hún meistaranám í Náms- og starfsráðgjöf við Háskólann og útskrifaðist þaðan árið 2014. Samhliða námi hefur hún starfað við kennslu og rannsóknir við Háskóla Íslands og starfar nú sem náms- og starfsráðgjafi þar.

Inga Berg var mikið í hestum á yngri árum og náði góðum árangri í keppni. Hennar besti árangur var þegar hún lenti í öðru sæti í barnaflokki á Landsmóti 2002 á Vindheimamelum. Þar var hún á  Úlfi frá Hjaltastöðum sem var hennar helsti keppnishestur. Inga Berg ákvað að enda sinn keppnisferil á toppnum og hefur ekki keppt á hestum síðan. Í dag ríður hún  út með fjölskyldu og vinum sér til skemmtunar.

Inga Berg býr með fjölskyldu sinni, Sigga kærasta sínum og Lilju Berg 2 ára dóttur þeirra í Reykjavík og koma þau mikið til okkar sveitina í fríunum sínum. Okkur leiðist sko ekki að fá ömmu- og afastelpuna okkar til okkar og hún er efnileg í hinum ýmsu sveitastörfum :)

 

 

 

 

Ponta


Ponta er aðal prímadonnan, hún er einstaklega blíð og góð en á sama tíma er hún ótrúlega dugleg að smala hrossum. Hún vill helst fylgja Gísla hvert fótmál og leiðist ekki að vera með honum í dráttarvélinni eða hesthúsinu.

Pitla

10531246_322079111291279_4683487877023275951_o
Pitla  litla er hvolpurinn okkar og hún er undan Pontu. Hún er ofsa fjörug og kát, en á sama tíma er hún mjög blíð og góð. Hún hefur marga svipaða takta og mamma sína og er óðum að læra að smala hrossunum og er mjög efnileg.

Patti

10452821_322079604624563_7348347494759598921_o

 

Patti okkar hins vegar, hann er mesta gæðablóð sem hægt er að hugsa sér. Honum finnst allra best að vera inni að leggja sig, helst upp í sófa hjá einhverjum. Hann vill helst fylgja Ástu og er einstaklega duglegur að hjálpa í eldhúsinu. Hann er eiginlega eins og lifandi bangsi sem elskar að láta knúsa sig og klappa.